Loading…

Ert þú með græna hugmynd?

Norræni loftslagssjóðurinn (e. Nordic Climate Facility) leitar eftir hugmyndum að grænum lausnum sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Útvaldar hugmyndir gætu átt kost á fjármögnun fyrir allt að 500.000 evrur. Þess er þó krafist að fyrirtækin geti komið að sameiginlegri fjármögnun verkefna.
 
Auglýst verður eftir tillögum að verkefnum síðar í sumar - sjöunda árið í röð. Þemað í ár er “Climate as business - Testing innovative green business concepts” en í ár er sérstök áhersla lögð á að ná enn betur til einkageirans. Frestur til að skila inn tillögum miðast við tímabilið 28. ágúst til 29. september 2017.

Norræni loftslagssjóðurinn er vistaður hjá Norræna þróunarsjóðnum (NDF) og veitir styrki til verkefna sem vinna að takmörkun áhrifa loftslagsbreytinga. Sjóðurinn tengir saman aðila á Norðurlöndunum og í þróunarríkjum, sem dæmi með því að deila upplýsingum um tæknilega þekkingu og nýsköpun á sviði loftslagsbreytinga. Markmið sjóðsins er að auka getu þróunarríkja til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, aðlagast/bregðast við áhrifum þeirra og vinna að sjálfbærri þróun og útrýmingu fátæktar.

Hægt verður að kynna sér málið nánar á fundi hjá Íslandsstofu þann 1. september nk. – nánar auglýstum síðar. Frekari upplýsingar um sjóðinn, umsóknarferlið og hverjir geta sótt um má finna hér.